Framleiðir fullmerkta vöru með nýjum búnaði frá Multivac.

Með nýjum búnaði frá Multivac hefur pökkunarvinnan hjá Jakobi Valgeir verið nútímavædd. Í staðinn fyrir að umpakka þurfi fisknum í neytendaumbúðir erlendis þá er nú hægt að flytja vöruna út tilbúna beint í verslanir.


Núna í janúar setti Multivac ehf. upp nýja pökkunarlínu hjá útgerðarfyrirtækinu Jakobi Valgeir í Bolungarvík. Þetta er önnur pökkunarlínan frá Multivac sem Jakob Valgeir fær en sú fyrri var tekin í notkun árið 2021.

 

„Það er sérstaklega gaman að sjá þetta allt verða að veruleika þar sem þetta eru fyrstu línurnar hér á landi í fiskvinnslu sem eru svona vel útbúnar,“ segir Bjarni S. Benediktsson, sölustjóri fiskiðnaðar hjá Multivac. Hann er búinn að vera í samskiptum við bræðurna Jakob og Guðbjart Flosasyni síðan 2014 varðandi þessi mál og segir samskiptin við þá og starfsfólk þeirra hafa verið einstaklega góð.

 

Nýja vélasamstæðan er afkastameiri en sú fyrri og samanstendur af innmötunarbandi, róbót og vakúmpökkunarvél ásamt prentara, uppraðara og flæðivog með prentara. Varan er þá tekin í pökkun beint frá vatnsskurðarvélum og gefst þannig möguleiki á að framleiða fullmerkta vöru sem er tilbúin beint inn í verslanir.

 

„Þetta eru sem sagt vélar sem geta pakkað beint inn í hillur á stórmörkuðum með strikamerkjum og vigt á hverri pakkningu og evruverði ef vill. Það er enginn milliliður þannig að við erum að fá alla framleiðnina út úr þessu hingað heim. Við erum þá að ná heim til Íslands allri þessari vinnu sem er hefur verið unnin úti í Evrópu eða Bandaríkjunum, og hefur alltaf verið. Vinnu sem hefur haldið uppi heilu verksmiðjunum þar.“

 

Pökkunarlínurnar uppsettar hjá Jakobi Valgeir.
 

Báðar línurnar eru með róbótum sem raða fiski í vélarnar, fyrri línan er með róbót sem er með tveimur örmun og afkastar 72 stk/mín en seinni línan er með þremur örmum og afkastar 110 stk/mín.

„Svo þarf líka miklu minni mannskap í kringum þetta. En þetta er ákveðin sérhæfing sem fólk þarf að ná góðum tökum á.“

 

Bjarni segir Multivac vera með fleiri verkefni í þróun varðandi pökkun á fiski. Þau verði kynnt fljótlega en þar á meðal er verið að skoða að umbreyta gömlu fimm punda pakkningunni sem var búin að vera eins í næstum 60 ár. Einnig nýtist þetta fyrir 2 kg pakkningu líka ef kaupendur samþykkja.

 

Magnús Sigurðsson, framkvæmdastjóri Multivac, segir að með þessu sé verið að nútímavæða og sjálfvirknivæða pakkningarvinnuna.

„Með því að breyta fimm punda pakkningum úr pólýetýlen plasti sem andar eins og glugginn á bak við þig og koma þessu í lofttæmingu þá verður geymsluþolið á hvítum fiski fjögur ár leikandi. Af því það er svo lítil fita í honum,“ segir Magnús.

Til þessa hefur þetta meira og minna verið unnið í höndunum.

„Þetta er sett í umslög og þeim er rúllað upp og sett ofan í öskju. Allt gert í höndunum.“

 

Multivac er stórt alþjóðlegt fyrirtæki með sjö þúsund starfsmenn, dótturfélög í 86 löndum og með veltu upp á 1,5 milljarða evra.

„Þetta er af sömu stærð og Marel, upphaflega þýskt fjölskyldufyrirtæki og er það enn,“ segir Magnús.

Sögu íslenska dótturfélagsins má rekja aftur til Sláturfélags Suðurlands sem lengi var með umboðið.

„Síðan kemur Multivac hingað árið 2008. Fyrst erum við útibú frá Danmörku og síðan frá 2015 erum við eigið dótturfélag. Þá voru fáar vélar í fiskgeiranum, en pakkningarvélar frá Multivac eru víða í íslenskum matvælaiðnaði nú."

Þá er engin vél í fiskgeiranum, en það eru nokkrir tugir í dag. Það var ekkert verið að pakka nema í frauðkassa eða lausfryst í tröllakassa, eða 20 kg poka eða eitthvað.“

Pakkningarvélar frá Multivac eru býsna víða á íslenskum markaði núna, ekki síst í kjötinu.

„Þegar þú ferð út í búð þá eru svona 80% líkur á að það sé pakkað í vélum frá okkur, hvort sem það eru hamborgarar, áleggið, pylsurnar eða hvað það heitir.“

Fyrri

Sjávarútvegssýning 2022

Sjávarútvegssýningin fer fram í september í Laugar...
Lesa meira...
Næsta

Interpack 2023

Multivac á Interpack 2023 stærstu pökkunarsýningu ...
Lesa meira...